Fótbolti

Jafntefli Barcelona blæs lífi í titilbaráttuna á Spáni

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Lionel Messi í baráttunni við Jose Caceres leikmann Sevilla.
Lionel Messi í baráttunni við Jose Caceres leikmann Sevilla. Nordic Photos/Getty Images
Barcelona gerði í kvöld 1-1 jafntefli við Sevilla á útivelli í fjörugum leik í spænsku deildinni í knattspyrnu. Barcelona hefur eftir leikinn fimm stiga forystu á toppnum á Real Madrid sem vann Hércules í gær.

Lionel Messi virtist vera búinn að koma Barcelona yfir með marki úr aukaspyrnu snemma leiks en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum dæmdi dómari leiksins markið ekki gilt.

Bojan kom Barcelona yfir á 30. mínútu leiksins eftir frábæra sókn. Andrés Iniesta átti frábæra sendingu á Dani Alves inn fyrir vörn Sevilla sem sendi fyrir á Bojan sem skilaði boltanum í netið. Messi fékk gott tækifæri til að tvöfalda forystuna en skalli hans á 42. mínútu hafnaði í markslánni.

Sevilla fékk sannkallað draumabyrjun í síðari hálfleik því á 49. mínutu jafnaði Jesús Navas leikinn með góðum skalla eftir laglegan undirbúning Alvaro Negredo.

Barcelona sótti af krafti eftir jöfnunarmarkið en fann engar leiðir framhjá Javi Varas í marki Sevilla. Iniesta var í stórræðum undir lok leiksins og átti skot í slána á 86. mínútu. Í uppbótartíma var Iniesta aftur á ferðinni en skot hans var varið á línu af varnarmönnum Sevilla.

Sevilla – Barcelona 1-1

0-1 Bojan (30.)

1-1 Jesús Navas (49.)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×