Fótbolti

Zlatan enn ósáttur við Guardiola

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Zlatan Ibrahimovic er greinilega enn ósáttur við Pep Guardiola, stjóra Barcelona, og segir að það hafi verið stjóranum að kenna að hann fór frá félaginu í sumar.

Zlatan varð einn dýrasti knattspyrnumaður sögunnar þegar að Barcelona keypti hann frá Inter árið 2009. Hann áttu misjöfnu gengi að fagna með liðinu og var lánaður til AC Milan í sumar. Hann er því enn samningsbundinn Barcelona en Milan á rétt á að kaupa hann á 24 milljónir evra í lok tímabilsins.

„Hjá Barcelona skildi ég hversu fljótt hlutirnir geta breyst í fótboltanum," sagði hann í samtali við ítalska fjölmiðla. „Mitt eina vandamál hjá félaginu var einn maður - „heimspekingurinn" [Guardiola]."

„Það er enginn sem getur sagt að ég hafi gert nokkuð rangt hjá félaginu og fyrstu sex mánuðirnir voru frábærir," sagði hann.

„En svo gerðist eitthvað og ég hef ekki hugmynd um hvað gerðist. Ég er enn að bíða eftir svörum."

„Ef maður hefur ekki einhvern til að hvetja mann áfram þá vill maður ekki berjast. Til þess eru þjálfarar."

„Ég hefði drepið mann og annan fyrir Jose Mourinho, miðað við hvernig hann gíraði mig upp fyrir leiki. Hinn þjálfarinn [Guardiola] hugsaði bara um fótbolta. En menn verða að aðlaga sinn stíl að leikmönnunum, sérstaklega þegar þeir eru búnir að eyða 70 milljónum evra."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×