Skoðun

Að standa í lappirnar

Vésteinn Ólason skrifar
Lögmaður hlynntur því að þjóðin hafni Icesave-lögunum sagði í Kastljósi að siðaðar þjóðir færu með mál sín fyrir dómstóla. Flestir lögmenn telja þó betra að semja um mál, og siðaðar þjóðir standa við yfirlýsingar sínar. Allt frá hruni hafa ríkisstjórnir Íslands (og reyndar forsetinn) sagt að Ísland vilji semja um Icesave. Þeir sem ætla að hafna samningnum nú vilja ekki semja. Þeir tala um áhættu af að semja en þegja um áhættuna af að semja ekki. Lögmaðurinn sagði einnig að Íslendingar ættu ekki að beygja sig fyrir hótunum um ofbeldi. Er það ofbeldi að nenna ekki að tala við þá sem ekki er hægt að semja við, að vilja ekki lána þeim sem ekki standa við orð sín? Icesave-skuldin er annars eðlis en þær skuldir óreiðumanna sem útlend fyrirtæki og stofnanir verða að taka á sig og skipta þúsundum milljarða króna.

Dapurlegt er þegar ungt fólk fellur fyrir kokhraustri þjóðrembu af því tagi sem einkenndi tal útrásarvíkinga og málsvara þeirra. Þegar lagt er mat á tilgang þeirra sem harðast berjast gegn samningnum er hollt að muna orð varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sem taldi drengilegra að hugsa um þjóðarhag en nýja leiki í baráttu gegn ríkisstjórninni.



Nú kemur til kasta 44 alþingismanna að útskýra fyrir þjóðinni sem kaus þá hvers vegna þeir samþykktu þennan nýja samning. Ef þeir draga lappirnar í umræðunni verða áreiðanlega margir sem ekki nenna á kjörstað í næstu alþingiskosningum. Vitlausasta hugmynd sem komið hefur fram — og kemur þó ekki á óvart úr þeirri átt — er tillaga Þórs Saari að hvorki alþingismenn né samningamenn megi tjá sig í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þetta eru þó þeir sem hafa lagt mesta vinnu í að kynna sér málið. Sú þjóð stendur ekki í lappirnar sem reynir að komast hjá því að standa við orð sín. Þeir sem standa við orð sín standa í lappirnar.






Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×