Körfubolti

NBA: Toppliðin töpuðu bæði - Denver endaði sigurgöngu Cleveland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carmelo Anthony fer hér framhjá LeBron James í leiknum í nótt.
Carmelo Anthony fer hér framhjá LeBron James í leiknum í nótt. Mynd/AP

Carmelo Anthony og félagar í Denver Nuggets enduðu þrettán leikja sigurgöngu Cleveland Cavaliers með 118-116 sigri í frábærum framlengdum leik liðanna í Cleveland í nótt en Cleveland er með besta árangur allra liða í NBA-deildinni í körfubolta. Topplið Vesturdeildarinnar, Los Angeles Lakers, tapaði einnig þegar Boston vann 87-86 sigur í Staples Center.

Carmelo Anthony skoraði 40 stig fyrir Denver og þar á meðal var sigurkarfan 1,9 sekúndum fyrir leikslok en hana skoraði Carmelo yfir LeBron James.

LeBron James náði tvöfaldri þrennu og sögulegum árangri þegar hann varð fyrsti leikmaður NBA-deildarinnar til þess að vera með að minnsta kosti 43 stig, 13 fráköst, 15 stoðsendingar, 2 stolna bolta og 4 varin skot í einum og sama leiknum.

James varð ennfremur fyrsti leikmaðurinn síðan að Oscar Robertson gerði það 13.febrúar 1962 til þess að ná þrennu upp á 40+ stig, 13 fráköst og 15 stoðsendingar en Robertson var þá með 42 stig, 18 stoðsendingar og 15 fráköst.

Ray Allen hitti úr 10 af 11 fyrstu skotum sínum og skoraði 24 stig í 87-86 sigri Boston Celtics á Los Angeles Lakers í Staples Center í Los Angeles.

Kendrick Perkins var með 13 stig og 14 fráköst hjá Boston og Rajon Rondo skoraði 14 stig og gaf 11 stoðsendinar. Pau Gasol skoraði 22 stig fyrir Lakers og Lamar Odom bætti við 13 stigum og 14 fráköstum en liðið tapaði þarna sínum fyrsta leik án Kobe Bryant í vetur.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×