Fótbolti

Guardiola spenntur fyrir því að stýra liði á Englandi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, hefur verið orðaður við stjórastarfið hjá Chelsea síðustu vikur og hann hefur nú gefið í skyn að hann hafi áhuga á að starfa á Englandi.

Guardiola hefur náð frábærum árangri með Barcelona en kýs að ráða sig aðeins til eins árs í senn. Hann hefur ekki enn framlengt við Börsunga.

"Þegar ég var leikmaður var ég spenntur fyrir því að spila á Englandi en það gekk ekki upp. Ég vil því ekki útiloka þann möguleika að ég muni þjálfa þar. Ég er ekki búinn að skipuleggja neitt slíkt en eðli þjálfarastarfsins er þannig að ég mun ekki vera hjá Barcelona að eilífu," sagði Guardiola sem er einnig talinn líklegur arftaki Sir Alex Ferguson hjá Man. Utd.

Arsenal er einnig sagt hafa augastað á þessum 39 ára þjálfara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×