Innlent

Fréttablaðið fjallar oftast um Jón Ásgeir

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson.

Fréttablaðið hefur birt mun fleiri fréttir um Jón Ásgeir Jóhannesson en fjóra aðra viðskiptamenn sem voru í forystu fjármálafyrirtækja í aðdraganda bankahrunsins á sex mánaða tímabili. Þetta kemur fram í samantekt sem Creditinfo vann fyrir Björgólf Thor Björgólfsson.

Að beiðni Björgólfs var tekið saman hversu mikið var fjallað um mennina fimm í Fréttablaðinu, Morgunblaðinu, DV og Viðskiptablaðinu. Mennirnir eru: Jón Ásgeir Jóhannesson, Björgólfur Thor Björgólfsson, Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Pálmi Haraldsson.

Kannað var sex mánaða tímabil frá því snemma í mars fram í aðra viku september.

Smellið til að sjá töfluna stærri.

Eins og lesa má úr meðfylgjandi töflu fjallaði Fréttablaðið oftast um Jón Ásgeir af mönnunum fimm. Alls birtust 88 fréttir um Jón Ásgeir í blaðinu, sem er ríflega þriðjungur frétta um mennina fimm. Næstmest var fjallað um Björgólf Thor, í samtals 57 skipti á tímabilinu.

Jón Ásgeir er eiginmaður Ingibjargar Pálmadóttur, aðaleiganda 365, útgáfufélags Fréttablaðsins.

Langsamlega mest var fjallað um Jón Ásgeir í Morgunblaðinu. Þar birtust 111 fréttir um hann á tímabilinu, sem var ríflega 46 prósent frétta um mennina fimm.

DV sker sig nokkuð úr, en blaðið hefur birt mun fleiri fréttir um mennina fimm en nokkurt hinna blaðanna, þrátt fyrir að blaðið komi aðeins út þrisvar í viku. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×