Fótbolti

Cristiano Ronaldo fékk að heyra það í spænsku blöðunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo lék algjöran píslarvott þegar hann var rekinn útaf.
Cristiano Ronaldo lék algjöran píslarvott þegar hann var rekinn útaf. Mynd/AFP

Cristiano Ronaldo varð harðlega gagnrýndur í spænskum fjölmiðlum í morgun eftir framkomu sína í 2-0 sigri Real Madrid á Malaga í spænsku úrvalsdeildinni í gær. Ronaldo skoraði bæði mörk Real í lok fyrri hálfleiks en var síðan rekinn útaf fyrir olnbogaskot í seinni hálfleik.

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Ronaldo sýnir á sér tvær ólíkar hliðar í leik með Real Madrid í vetur sem þýðir að doktor Jekyll og herra Hyde viðurnefnið er farið að festast við hann.

„Cristiano Ronaldo, hetja og skúrkur" var fyrirsögnin í El Pais, „Cristiano Ronaldo, aftur engill og djöfull," sló La Razon upp og í Marca var fyrirsögnin; „Doktor Cristiano og Herra Ronaldo og vísaði þar í söguna um doktor Jekyll og herra Hyde.

Roberto Palomar, pistlahöfundur í Marca, fór heldur ekki í felur með skoðun sína. „Hver sá sem lætur reka sig útaf á móti Almeria og Malaga þegar leikirnir eru unnir er sauður," skrifaði Palomar meðal annars.

Cristiano Ronaldo hélt fram sakleysi sínu eftir leikinn auk þess að leika algjöran píslarvott inn á vellinum þegar hann fékk að líta rauða spjaldið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×