Innlent

Grandi byrjar síldveiðarnar í Breiðafirði

Ingunn AK Var í Reykjavíkurhöfn í gær að taka nót um borð. Stefnan er sett á Breiðafjörð til veiða á íslenskri sumargotssíld.
Ingunn AK Var í Reykjavíkurhöfn í gær að taka nót um borð. Stefnan er sett á Breiðafjörð til veiða á íslenskri sumargotssíld.

HB Grandi hefur ákveðið að senda Ingunni AK til veiða á íslenskri sumar­gotssíld og tók skipið nót í Reykjavíkurhöfn í gær. Mikil óvissa hefur verið um það hvort ástand síldarstofnsins væri með þeim hætti að kvóti yrði gefinn út á þessu hausti, en eins og kunnugt er greindist sýking í stofninum.

Samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðherra hefur hins vegar verið gefinn út fimmtán þúsund tonna byrjunarkvóti. Hlutur Granda er um 1.800 tonn, eins og kemur fram á heimasíðu fyrirtækisins.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, var ákveðið að senda Ingunni til veiða á íslensku sumargotssíldinni, þar sem veðurspáin er óhagstæð fyrir austan landið þar sem skip HB Granda hafa stundað veiðar á norsk-íslensku síldinni. Spáin fyrir vestanvert landið er hins vegar hagstæð en vitað er til þess að töluvert magn af íslensku sumargotssíld heldur sig inni á Breiðafirði um þessar mundir.

Alls eiga skip HB Granda nú óveidd um 1.400 tonn af norsk-íslenska síldarkvótanum, en sífellt erfiðara er að sækja aflann. Að sögn Vilhjálms mun framvinda mála næstu daga skera úr um það hvort veiðunum verður haldið áfram eða hvort eftirstöðvar kvótans verða færðar yfir á næsta ár.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×