Körfubolti

Clippers búið að henda Dunleavy á götuna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mike Dunleavy.
Mike Dunleavy.

Mike Dunleavy hefur verið rekinn sem framkvæmdastjóri Los Angeles Clippers í NBA-deildinni og hann hefur ekki enn hugmynd um hvað gerðist og af hverju hann var rekinn.

Í gær fór hann í klippingu og svo heim að pakka fyrir ferðalag þar sem hann ætlaði að njósna um leikmenn. Svo skrapp hann á golfvöllinn í tvo klukkutíma.

Þegar hann kemur til baka úr golfinu þá er búið að reka hann án þess að hann hefði hugmynd um það.

„Þegar ég næ í símann í klefann eftir golfið eru um milljón sms á símanum mínum. Þá kemur einhver maður upp að mér og tjáir mér að ég hafi verið rekinn frá Clippers. Ég hafði ekki hugmynd um hvað hann var að segja. Ég var bara „wow", ég er ekki einu sinni búinn að tala við þá," sagði Dunleavy.

Það er ekki einu sinni liðinn mánuður síðan hann hætti að þjálfa liðið til þess að einbeita sér að framkvæmdastjórastarfinu. Hann segist hafa sent forseta félagsins skilaboð til þess að þakka fyrir samstarfið en því hefur ekki verið svarað. Það hefur enginn frá félaginu talað við hann.

Ástæðan fyrir uppsögninni sem Clippers hefur gefið út er sú að félagið hafi ekki tekið nægum framförum undir hans stjórn. Það er talsvert mikið til í því.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×