Innlent

Mikilvægt að eyða óvissunni um lánin

Gylfi Arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson

„Það er ánægjulegt að búið er að eyða þeirri óvissu sem verið hefur um þessi mál. Þetta hefur tafið mjög fyrir því að hægt væri að fara í eðlilega tiltekt á skuldastöðu heimilanna. Löggjöfin hefur verið þannig að fólk ber skuldir fram yfir gröf og dauða,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Hann segir niðurstöðuna hins vegar hafa komið á óvart.

„Ég átti von á því að samningsvextir myndu standa. Það hefði þýtt meiri niðurfærslu skulda hjá tilteknum hópi en líka að heimilin hefðu þurft að taka á sig miklar byrðar í gegnum hið opinbera, enda hefði höggið gengið nærri fjármálafyrirtækjunum.

Gylfi bendir á að dómur Hæstaréttar sé frábrugðinn dómi í héraði í þeim skilningi að þar er mun skýrari afstaða tekin, sem auðveldar úrvinnsluna. „Ég fagna yfirlýsingu ráðherra um að setja eigi lög sem tryggja jafnræði óháð lánasamningum.“

Gylfi segist hafa skilning á því að greinarmunur sé gerður á lánum fyrirtækja og heimila. Fyrirtækin hafi meiri þekkingu, þar á milli sé meira jafnræði. Hins vegar sé flækjustigið varðandi fyrirtækjalánin gríðarlegt og litlu hægt að spá um hvernig úr því máli verður leyst.

Gylfi segir að málið hafi seinkað efnahagsbatanum verulega og staðið nauðsynlegum aðgerðum fyrir þrifum. Dómurinn veki vonir um að hægt verði að þoka mikilvægum málum af stað. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×