Viðskipti innlent

Endurskoðun úr takti við við vöxt bankanna

Leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins (FME) á innri endurskoðuni fjármálafyrirtækja komu allt of seint fram, þótt þær hefðu verið til bóta, að mati Rannsóknarnefndar Alþingis. Tilmælin voru gefin út 24. September 2008, tæpum mánuði fyrir hrun bankanna og níu dögum eftir fall Lehman Brothers bankans í Bandaríkjunum.

Þá kemur fram gagnrýni á FME í því að ekki hafi verið fylgt tilmælum svonefndra BASEL reglna um að halda reglubundið fundi með innri endurskoðendum fjármálafyrirtækja.

„Þessi regla kemur ekki að ástæðulausu inn í Baselregluverkið því að þetta kemur náttúrulega upp úr áföllum sem evrópski bankaheimurinn hefur þó lent í áður en allt hrundi," er í skýrslu rannsóknarnefndarinnar haft eftir Sigurjóni Geirssynii, innri endurskoðanda Landsbanka Íslands.

„Innri endurskoðun er eitt helsta innra stjórntækið sem stjórn fjármálafyrirtækis hefur yfir að ráða til að fá óháð mat á því hvort innra eftirlit sé virkt og hvort lögum og reglum, sem og stefnu fyrirtækisins, sé fylgt í daglegum störfum þess," segir í áliti rannsóknarnefndarinnar. „Að mati rannsóknarnefndar Alþingis var það mikil framför að Fjármálaeftirlitið skyldi hinn 24. september 2008 gefa út leiðbeinandi tilmæli um störf endurskoðunardeilda fjármálafyrirtækja nr. 3/2008. Á hinn bóginn var það gert allt of seint miðað við þá knýjandi þörf sem var á markvissara og öflugra innra eftirliti í fjármálafyrirtækjunum í ljósi þess að mörg þeirra höfðu stækkað um 30 til 50 prósent ár hvert, nokkur ár í röð."

Þá kemur fram í skýrslu nefndarinnar um innri og ytri endurskoðun að endurskoðunardeildir bankanna hafi vart haft undan að fylgja á eftir örum vexti bankanna. „Vegna þess hvað bankarnir uxu hratt þá var innri endurskoðun alltaf á eftir," er haft upp úr skýrslu Sigurjóns Geirssonar, innri endurskoðanda Landsbanka Íslands, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis.

Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar eftir skoðun á göngnum og yfirferð á skýrslum sem innri endurskoðendur gáfu fyrir nefndinni er að hægt hafi gengið að ná fram umbótum á því sem innri endurskoðendur bentu á í skýrslum og greinargerðum sínum.

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að meginverkefni endurskoðunardeilda á tímabilinu 2005 til falls fjármálafyrirtækjanna á árinu 2008 hafi verið að auka gæði og bæta rekstur og meta virkni eftirlits- og upplýsingakerfa og útlánaeftirlits. „Hvað varðar útlánaeftirlit og þá sérstaklega mat á virði útlána er ljóst að innri endurskoðunardeildir komu mjög takmarkað að því verki. Í viðtölum við innri endurskoðendur stærstu fjármálafyrirtækjanna kom einnig fram að þeir töldu það ekki hlutverk innri endurskoðunar að annast slíkt heildarmat."

Vitnað er til þess að í skýrslu Ágústs Rafnkelssonar, innri endurskoðanda Glitnis, hafi komið fram að miklu hefði skipt að leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins hefðu komið fyrr því það væri „alveg ljóst að á þessum uppgangsárum þá fékk hvað sem varðaði innra eftirlit ákaflega lítinn fókus, það var ekki hátt skrifað í kerfinu og alveg sama hvort menn horfa til regluvörslunnar, áhættustýringarinnar eða innri endurskoðunar þá voru þessar deildir, að minnsta kosti í Glitni, frekar veikar, lengi framan af"










Fleiri fréttir

Sjá meira


×