Fótbolti

Real Madrid á toppinn eftir lygilegan sigur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Úr leik liðanna í kvöld.
Úr leik liðanna í kvöld.

Real Madrid er komið upp fyrir Barcelona á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar eftir dramatískan sigur, 3-2, á Sevilla í kvöld. Liðin hafa jafn mörg stig en Real er á toppnum með betra markahlutfall.

Sevilla komst yfir í leiknum á 10. mínútu er Xabi Alonso varð fyrir því óhappi að skora sjálfsmark. Það reyndist vera eina mark fyrri hálfleiks.

Það blés ekki byrlega fyrir Madridinga þegar Ivica Dragutinovic kom Sevilla í 0-2 með marki á 52. mínútu.

Það mark kveikti loks neistann hjá heimamönnum og Cristiano Ronaldo minnkaði muninn á 60. mínútu og Sergio Ramos jafnaði leikinn fjórum mínútum síðar.

Madrid sótti rosalega það sem eftir lifði leiks. Þegar komið var fram í uppbótartíma óðu Madridingar í færum. Fyrst Ronaldo en skot hans af stuttu færi var varið.

Þegar tæpar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma náði Hollendingurinn Rafael van der Vaart að moka boltanum inn fyrir línuna eftir enn eina þungu sóknina frá Madridingum. Það reyndist vera sigurmark leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×