Körfubolti

Níunda tapið í röð hjá liði Detroit Pistons

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Nowitzki í baráttunni við Carl Landry í Texas-slagnum í nótt.
Dirk Nowitzki í baráttunni við Carl Landry í Texas-slagnum í nótt. Mynd/AP

Detroit Pistons tapaði sínum níunda leik í röð í NBA-deildinni í nótt þegar liðið tapaði 87-98 á heimavelli fyrir Chicago Bulls. San Antonio Spurs vann sinn fjórða leik í röð og Houston Rockets vann Dallas Mavericks í Texas-slagnum.

Derrick Rose var með 22 stig fyrir Chicago Bulls í sigrinum á Detroit og Joakim Noah bætti við 15 stigum og 21 frákasti en þetta var fyrsti útisigur liðsins í sex vikur.

Rodney Stuckey var með 22 stig fyrir Detroit Pistons og Ben Gordon bætti við 21 stigi á móti sínum gamla félagi. Detroit Pistons hefur í fyrsta sinn síðan 2000-01 tímabilið tapað tíu fleiri leikjum en liðið hefur unnið.

Tim Duncan var með 23 stig og 10 fráköst í fjórða sigri San Antonio Spurs í röð en liðið vann þá öruggan 30 stiga sigur á Miami Heat, 108-78. Manu Ginobili bætti við 18 stigum fyrir Spurs-liðið sem hefur unnið 10 af síðustu 12 leikjum sínum. Michael Beasley skoraði 26 stig fyrir Miami en Dwyane Wade var bara með 16 stig.

Aaron Brooks skoraði 30 stig í 97-94 sigri Houston Rockets á Dallas Mavericks í Texas-slagnum. Jason Terry var með 20 stig fyrir Dallas.

Kevin Durant (31 stig) braut 30 stiga múrinn í sjötta leiknum í röð þegar Oklahoma City Thunder vann 87-86 sigur á Utah Jazz. Nick Collison tryggði Oklahoma City sigur á vítalínunni 4,5 sekúndum fyrir leikslok. Carlos Boozer var með 17 stig fyrir Utah.

Chris Kaman var með 26 stig og 10 fráköst í 104-88 sigri Los Angeles Clippers á Philadelphia 76ers í síðasta NBA-leiknum á árinu 2009. Lou Williams var með 19 stig fyrir Philadelphia og Elton Brand skoraði 17 stig í fyrsta útileik sínum á móti Clippers síðan að hann yfirgaf félagið.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×