Körfubolti

NBA í nótt: Phoenix sópaði út San Antonio Spurs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Nash fagnar sigri í nótt.
Steve Nash fagnar sigri í nótt. Mynd/AP
Phoenix Suns þurfti bara fjóra leiki til þess að slá San Antonio Spurs út úr undanúrslitum Vesturdeildarinnar í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta. Phoenix vann 107-101 sigur í fjórða leik liðanna í San Antonio í nótt og er fyrsta liðið síðan 2001 til þess að sópa út San Antonio.

Steve Nash tókst loksins að komast í gegnum San Antonio en hann hafði sex sinnum þurft að sætta sig við að detta út fyrir Spurs-liðinu í úrslitakeppninni. Nash var með 20 stig og 9 stoðsendingar í leiknum í nótt en hann endaði hann með myndarlegt glóðarauga eftir að hafa fengið slysa-olnbogaskot frá Tim Duncan í þriðja leikhluta.

„Auðvitað er ég mjög leiður og reiður yfir því að við töpuðum en á sama tíma get ég verið ánægður fyrir hönd Nash og (Amare) Stoudemire. Þeir hafa gefið allt í leikina á móti okkur undanfarin ár og þetta hafði aldrei fallið með þeim. Það féll hinsvegar allt með þeim í ár," sagði Tony Parker, leikstjórnandi San Antonio Spurs eftir leikinn.

Amare Stoudemire skoraði 29 stig fyrir Phoenix, Nash var eins og áður sagði með 20 stig og Jared Dudley skoraði 16 stig. Tony Parker var stigahæstur með 22 stig hjá Spurs. Tim Duncan skoraði 17 stig og tók 8 fráköst og Manu Ginobili var með 15 stig og 9 stoðsendingar

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×