Körfubolti

Troðslan sem kostaði Andrew Bogut úrslitakeppnina - myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrew Bogut sést hér lenda ofan á vinstri hendinni sinni.
Andrew Bogut sést hér lenda ofan á vinstri hendinni sinni. Mynd/AP
Andrew Bogut, ástralski miðherjinn hjá Milwaukee Bucks í NBA-deildinni í körfubolta, verður líklega ekkert meira með liði sínu á tímabilinu eftir að hann meiddist illa í leik á móti Phoenix Suns í fyrrinótt. Bogut lenti illa á hendinni eftir að hafa skorað úr hraðaupphlaups-troðslu í öðrum leikhluta.

Andrew Bogut skall í gólfið eftir að hann missti takið á hringnum með þeim afleiðingum að hann handleggsbrotnaði, fór úr olnbogalið og tognaði á úlnlið.

Amare Stoudemire, leikmaður Phoenix Suns, fékk dæma á sig óíþróttamannslega villu þótt að atvikið hafi verið meira slys en eitthvað fólskubrot hjá honum.

Það er hægt að sjá atvikið hér en það er rétt að vara við viðkvæmar sálir enda er atvikið ekki auðvelt á að horfa og strax ljóst að Bogut hafi meiðst mjög illa.

Andrew Bogut hefur verið óheppinn með meiðsli síðan að hann var valinn fyrstur í nýliðavalinu 2005. Hann hefur átt mjög gott tímabil með Milwaukee Bucks og er með 15,9 stig og 10,2 fráköst að meðaltali í leik.

Milwaukee Bucks liðið hefur staðið sig mjög vel í NBA-deildinni í vetur en þetta verður núna afar erfið úrslitakeppnin hjá liðinu víst að það þarf að spila án miðherja síns.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×