Innlent

Áfram fylgst með fjármálum

Kópavogsbær Skuldir og skuldbindingar bæjarins eru um 30 milljarðar króna. Skuldir á að greiða niður um milljarð næstu árin.fréttablaðið/vilhelm
Kópavogsbær Skuldir og skuldbindingar bæjarins eru um 30 milljarðar króna. Skuldir á að greiða niður um milljarð næstu árin.fréttablaðið/vilhelm

sveitarstjórnarmál Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) mun ekki aðhafast frekar vegna fjármála Kópavogsbæjar. Þetta kemur fram í bréfi EFS til bæjarstjórnar dagsettu 17. desember síðastliðinn.

EFS ítrekar þó varnaðarorð til bæjarstjórnarinnar um skuldastöðu bæjarins og mun nefndin fylgjast með framvindu fjármála bæjarins á næstu misserum.

Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs, fagnar niðurstöðu nefndarinnar á heimasíðu sveitarfélagsins. Hún segir brýnt að stjórnendum bæjarins takist að vinda ofan af miklum skuldum sem muni létta reksturinn til lengri tíma.

„Það er ljóst að ekkert má út af bregða og við þurfum að halda stíft í taumana,“ segir Guðríður.

Samkvæmt fjárhagsáætlun Kópavogs fyrir árið 2011 á reksturinn að skila einum milljarði til lækkunar skulda á því ári og svo áfram næstu árin. Bæjarstjórnin hefur jafnframt sett sér það markmið að skuldir sem hlutfall af tekjum verði undir 200 prósentum árið 2014.

Áætlað er að þetta hlutfall verði 248 prósent vegna þessa árs og að það verði 214 prósent á næsta ári. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×