Fótbolti

Olsen ætlar að hætta með danska landsliðið eftir EM 2012

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Morten Olsen, þjálfari danska landsliðsins.
Morten Olsen, þjálfari danska landsliðsins. Mynd/Nordic Photos/Getty

Morten Olsen, þjálfari danska landsliðsins í fótbolta, tilkynnti það í dag að hann ætli að hætta að þjálfar landsliðið eftir Evrópukeppnina sem fer fram 2012.

Danmörk er eins og kunnugt er með því íslenska í riðli í undankeppninni en Danir eru þessa stundina í 3. sæti riðilsins á eftir Noregi og Portúgal.

„Þetta verður síðasta undankeppnin mín. Ég tilkynnti sambandinu um það í gær að ég hefði ekki áhuga á því að framlengja samninginn minn," sagði Morten Olsen.

Morten Olsen er 61. árs gamall en hann tók við landsliðinu eftir Evrópukeppnina 2000. Hann gerði fyrst tveggja ára samning, framlengdi síðan til 2006, svo aftur til 2010 og gerði loks tveggja ára samning sem rennur út 2012.

Danska landsliðið komst í úrslitakeppni HM 2002 og 2010 sem og í úrslitkeppni EM 2004 þar sem liðið fór alla leið í átta liða úrslitin.

Morten Olsen var á sínum tíma fyrirliði danska landsliðsins og lék alls 102 landsleiki. Hann hefur nú stýrt danska landsliðinu í 114 leikjum (59 sigrar, 30 jafntefli og 25 töp).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×