Körfubolti

Dirk Nowitzki vildi ekki spila undir berum himni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Nowitzki.
Dirk Nowitzki. Mynd/AP

Phoenix Suns vann 98-90 sigur á Dallas Mavericks í sérstökum leik í nótt á sem er liður í undirbúningstímabili liðanna fyrir komandi tímabil í NBA-deildinni.

Leikurinn fór nefnilega fram undir berum himni í Indian Wells Tennis Garden. Þetta er þriðja árið í röð leikur fer fram á þessum stað á þessum tíma en spilað var í 32 stiga hita.

Grant Hill skoraði 16 stig fyrir Phoenix Suns liðið, Jason Richardson skoraði 15 stig og Steve Nash var með 7 stig og 10 stoðsendingar. Phoenix var með 36 stiga forskot í þriðja leikhluta en Dallas fór langt með að vinna það upp í lokaleikhlutanum.

Jose Barea skoraði mest fyrir Dallas eða 13 stig en Caron Butler var með 12 stig. Dallas-liðið var bæði án þjálfara síns, Rick Carlisle, sem og aðalstjörnunnar sinnar, Þjóðverjanum Dirk Nowitzki.

Það leið yfir Rick Carlisle á æfingu á föstudaginn og hann kom því ekki með liðinu en aðstoðarmaður hans, Dwane Casey, stjórnaði Dallas-liðinu í leiknum.

Dirk Nowitzki var hinsvegar fullfrískur en hann vildi ekki taka áhættuna á því að spila undir berum himni þar sem að aðstæðurnar utanhúss gætu að hans mati truflað skotið hans svona skömmu fyrir tímabil.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×