Innlent

Allir setjist niður og klári mál fyrirtækja

Vilhjálmur Egilsson
Vilhjálmur Egilsson

„Það er gott að fá þessa niðurstöðu og stórt skref í að eyða óvissu," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„Meginlínan er að dragast upp. Það sem nú þarf að gerast hvað varðar fyrirtækin er að allir setjist niður við sama borð, bankarnir og viðskiptavinirnir, og fari yfir hvernig best sé að vinna úr lánamálum fyrirtækjanna. Það verður að ganga eins hratt og mögulegt er í fjárhagslega endurskipulagningu á atvinnulífinu án þess að réttur sé tekinn af einum eða öðrum."

Vilhjálmur segir ekki einhlítt hver græði og hver tapi á uppgjörinu. „Í gegnum tíðina hafa margir hagnast á þessum lánum, sem nú er búið að ákveða hvernig á að vaxtareikna aftur í tímann. Svo eru aðrir sem hafa tapað. Þá vaknar spurningin gagnvart fyrirtækjunum hvort bankarnir eigi kröfurétt á fyrirtækin sem hafa hagnast. Það er svo hin hliðin á peningnum hvað verður um fyrirtækin sem töpuðu." Alls konar mál munu koma upp, segir Vilhjálmur og nefnir dæmi: „Hvað um þau fyrirtæki sem þegar eru orðin gjaldþrota? Hvað gerist með fyrirtæki sem reynst hafa borgað of lítið, þegar lánin verða reiknuð upp?"

Mestu skiptir, segir Vilhjálmur, að nú í fyrsta skipti sé hægt að taka á þessum málum þegar grundvallar óvissunni um vextina hefur verið eytt. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×