Körfubolti

NBA: Portland vann í Phoenix - Lakers, Orlando og Dallas komin í 1-0

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr leik Portland og Phoenix í nótt.
Úr leik Portland og Phoenix í nótt. Mynd/AP

Öll einvígin í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta er nú komin af stað og óvæntustu úrsliti næturinnar voru þegar Portland Trail Blazers vann fyrsta leikinn á móti Phoenix Suns en leikurinn fór fram á heimavelli Phoenix.

Andre Miller skoraði 15 af 31 stigi sínu í fjórða leikhluta þegar Portland vann 105-100 sigur í fyrsta leiknum á móti Phoenix en það háði liðinu ekki að leik án eins besta manns síns, Brandon Roy, sem er meiddur á hné. LaMarcus Aldridge skoraði 22 stig fyrir Portland en Steve Nash var með 25 stig og 9 stoðsendingar fyrir Phoenix.

Pau Gasol var með 19 stig og Andrew Bynum skoraði 13 stig þegar Los Angeles Lakers vann 87-79 sigur í fyrsta leiknum á móti Oklahoma City Thunder. Kobe Bryant skoraði 21 stig í leiknum en hitti aðeins úr 6 af 19 skotum sínum. Kevin Durant var með 24 stig fyrir Oklahoma City og Russell Westbrook skoraði 23 stig.

Dirk Nowitzki hitti úr 12 af 14 skotum sínum og skoraði 36 stig í 100-94 sigri Dallas Mavericks á San Antonio Spurs. Caron Butler var með 22 stig fyrir Dallas en þríeykið hjá Spurs átti ágætan leik en það dugði ekki til. Tim Duncan var með 27 stig og 8 fráköst, Manu Ginobili skoraði 26 stig og Tony Parker var með 18 stig og 4 stoðsendinga.

Jameer Nelson skoraði 24 af 32 stigum sínum í fyrri hálfleik þegar Orlando Magic vann 98-89 sigur á Charlotte Bobcats í fyrsta leik þess einvígis. Orlando var þó nærri búið að missa niður 22 stiga forskot í seinni hálfeik. Rashard Lewis var með 19 stig en Dwight Howard skoraði aðeins 5 stig. Howard varði 9 skot í leiknum en var í miklum villuvandræðum í seinni hálfleik. Gerald Wallace skoraði 25 stig fyrir Charlotte.

Úrslitin í nótt og staðan í einvígunum:

Los Angeles Lakers-Oklahoma City Thunder 87-79

(1-0 fyrir Lakers)

Orlando Magic-Charlotte Bobcats 98-89

(1-0 fyrir Orlando)

Dallas Mavericks-San Antonio Spurs 100-94

(1-0 fyrir Dallas)

Phoenix Suns-Portland Trail Blazers 100-105

(0-1 fyrir Portland)



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×