Innlent

Sjö af tíu vilja að stjórnvöld afturkalli kvóta

Mikill meirihluti landsmanna er fylgjandi því að stjórnvöld afturkalli fiskveiðiheimildir og úthluti þeim aftur með breyttum reglum að því er fram kemur í nýlegri könnun MMR.

Alls sagðist 71 prósent svarenda hlynnt afturköllun, um 19 prósent voru andvíg og 10 prósent sögðust hvorki hlynnt né andvíg. Andstaða við núverandi kvótakerfi er talsvert meiri nú en áður, en í könnun sem MMR gerði í febrúar 2009 sagðist 61 prósent fylgjandi því að stjórnvöld afturkalli með einum eða öðrum hætti gildandi fiskveiðiheimildir og úthluti þeim að nýju með breyttum reglum.

Um 38 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks eru fylgjandi afturköllun, en 59 prósent kjósenda Framsóknarflokks. Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda Samfylkingar og Vinstri grænna, eða 93 og 96 prósent eru henni fylgjandi. Úrtakið í könnuninni var 854 einstaklingar úr hópi álitsgjafa MMR.

Spurt var: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að stjórnvöld afturkalli með einum eða öðrum hætti gildandi fiskveiðiheimildir og úthluti þeim að nýju með breyttum reglum?- þj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×