Innlent

Kallar á frekari málaferli lántaka

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson

„Ég er mjög hissa á niðurstöðu Hæstaréttar og þeim rökum sem sett eru fram. Hæstiréttur fer aðeins í lagaleg rök og hunsar í raun málflutning beggja aðila fyrir dómnum. Hann viðurkennir að vextirnir séu óaðskiljanlegir frá gengistryggingunni. En eftir það hugsar hann ekki neitt um málflutning aðila,“ segir Marinó G. Njálsson hjá Hagsmunasamtökum heimilanna.

+„Rétturinn ógildir einfaldlega vextina og vaxtalögin taka við. Það er ekkert pælt í því hvað þetta þýðir, sem mér finnst gróft, því þegar vaxtalögin taka við þyngist greiðslubyrði lánanna. Af tíu milljóna króna láni sýnist mér að lántaki skuldi 100 þúsund króna vaxtagreiðslu á mánuði aftur í tímann. Það er vegna þess að vextirnir fara kannski úr fimm prósentum í fimmtán. Þetta getur ekki staðist.“

Marinó segir að Hæstiréttur hunsi algjörlega forsendubrest og neytendaverndarmál, bæði í skilningi íslenskra laga og Evróputilskipun.

„Dómurinn gengur því ekki upp nema með tilliti til þessa eina lagabókstafs.“

Marinó segir að dómurinn kalli ekki á neitt annað en að lántakar munu fara í frekari málaferli.

„Það er ekki verið að leysa neitt heldur aðeins að færa víglínuna til. Lántakar munu annars vegar fara í mál innanlands þar sem þeir munu reyna að fá forsendubrestinn viðurkenndan. Hins vegar fer þetta fyrir EFTA-dómstólinn þar sem verður látið reyna á neytendaverndunartilskipun ESB.“ - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×