Innlent

Verkefnisstjórn skilar tillögum til ráðherra

Varnir Meðal verkefna Varnarmálastofnunar er rekstur loftvarnarkerfis, umsjón með loftrýmisgæslu og þátttaka í starfi NATO.Fréttablaðið/GVA
Varnir Meðal verkefna Varnarmálastofnunar er rekstur loftvarnarkerfis, umsjón með loftrýmisgæslu og þátttaka í starfi NATO.Fréttablaðið/GVA

Framtíð þeirra verkefna sem nú eru vistuð hjá Varnarmálastofnun mun skýrast á næstu dögum, segir Guðmundur B. Helgason, formaður verkefnisstjórnar Varnarmálastofnunar.

Hann segir verkefnisstjórnina hafa skilað tillögum um framtíðarfyrirkomulag varnarmála á fundi með Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra og Ögmundi Jónassyni, dómsmálaráðherra og samgönguráðherra, fyrir stuttu.

Verkefnisstjórnin tók við rekstri Varnarmálastofnunar í september, en stofnunin verður lögum samkvæmt lögð niður um áramót.

Heimildir Fréttablaðsins herma að ekki sé samkomulag innan stjórnarinnar um framtíðarfyrirkomulag sumra verkefna stofnunarinnar. Til dæmis er ágreiningur um hver eigi að reka loftvarnarkerfið, sem er hluti af loftvarnarkerfi Atlantshafsbandalagsins.

Guðmundur segir vissulega skiptar skoðanir innan stjórnarinnar, en nefndin hafi einungis það hlutverk að koma með tillögur. Ráðherra taki endanlega ákvörðun.

Alger óvissa um framtíðina ríkir meðal starfsmanna Varnarmálastofnunar. Guðmundur segir ekki tímabært að úttala sig um hvort einhverjir starfsmenn muni missa vinnuna. Færist verkefnin annað fái starfsmenn væntanlega starfstilboð þaðan. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×