Innlent

Víða hefur orðið vart við dekkjaskort

Örtröð Mikið annríki hefur verið á dekkjaverkstæðum síðustu daga svo að víða hefur orðið vart við dekkjaskort. fréttablaðið/arnþór
Örtröð Mikið annríki hefur verið á dekkjaverkstæðum síðustu daga svo að víða hefur orðið vart við dekkjaskort. fréttablaðið/arnþór

Dekkjaskortur hefur gert vart við sig á sumum hjólbarðaverkstæðum höfuðborgarsvæðisins síðustu daga og vikur, enda tíðarfar þannig að langar biðraðir hafa myndast við mörg verkstæðanna.

Viðmælandi Fréttablaðsins á skrifstofu Sólningar sagði aðspurður að ekki væri hægt að neita því að vart hefði verið um dekkjaþurrð. Enn væru þó til dekk í flestum stærðum, en versta ástandið væri í sendibíladekkjunum. Þó væri líka farið að ganga á birgðir í jeppadekkjum og sumum stærðum fólksbíla.

Hann sagði að hjá Sólningu væru vetrardekk fyrir jeppa og fólksbíla pöntuð í upphafi árs og það tæki tíma að fá nýja pöntun. Sérstaklega hvað varðaði nagladekk, sem virtust halda velli þrátt fyrir allt sem væri sagt þeim í móti.

Dagur Benónýsson, yfirmaður hjá N1, sagði að þótt mikið annríki hefði verið hjá verkstæðum fyrirtækisins þessa fyrstu daga frosts og snjóa væri ástandið ekki orðið alvarlegt.

„Þetta bjargast. Við erum að fá nýjar sendingar reglulega og sú næsta kemur í næstu viku.“- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×