Innlent

Fjórðungur eyðir minna í heilbrigði

Heilbrigði Meirihluti þeirra sem þátt tóku í könnuninni eyddi minna í ferðalög og skemmtanir, en fjórðungur eyddi einnig minna til heilbrigðismála.Fréttablaðið/Vilhelm
Heilbrigði Meirihluti þeirra sem þátt tóku í könnuninni eyddi minna í ferðalög og skemmtanir, en fjórðungur eyddi einnig minna til heilbrigðismála.Fréttablaðið/Vilhelm

Fjórði hver félagsmaður í stéttarfélögunum Eflingu, Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis (VSFK), svokölluðu Flóabandalagi, hefur dregið úr útgjöldum sínum til heilbrigðismála vegna versnandi fjárhags. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem gerð var meðal félagsmanna.

Ríflega helmingur félagsmanna hefur áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni. Mestar áhyggjur hefur fólk á aldrinum 25 til 34 ára, en ríflega sex af hverjum tíu í þeim hópi hafa áhyggjur af fjárhagnum.

Um fimmtungur félagsmanna hefur leitað sér aðstoðar vegna fjármála sinna, og tíundi hver hefur leitað eftir aðstoð banka eða fjármálastofnana, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.

Félagar í Eflingu, Hlíf og VSFK vinna yfirleitt hefðbundin láglaunastörf á borð við almenn verkamannastörf, störf við ræstingu, leiðbeinendastörf á leikskólum og önnur sambærileg störf.

Um var að ræða símakönnun sem unnin var af Capacent Gallup fyrir Eflingu, Hlíf og VSFK. Hringt var í 2.366 manns dagana 26. ágúst til 20. september. Svarhlutfallið var 54,4 prósent.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×