Innlent

HÍ vill takmarkaðri aðgang

Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra hefur boðað Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, á fund sinn eftir áramót til að ræða fyrirhugaðar aðgangstakmarkanir að skólanum. Þetta kom fram í fréttum RÚV í gær.

Ráðherra telur að aðgangstakmarkanir séu síðasta úrræðið sem Háskólinn geti gripið til til að bregðast við þröngri fjárhagsstöðu og vill því fá skýringar á því hvernig skólinn hefur í hyggju að standa að þeim.

Stjórnendur HÍ hafa ákveðið að grípa til ýmissa aðgerða til að bregðast við niðurskurðarkröfu stjórnvalda. Starfsfólki verður fækkað, starfshlutfall lækkað, hagrætt verður í kennslu og gripið verður til aukins aðhalds í rekstri.

Háskólaráð hefur sömuleiðis ítrekað beiðni til stjórnvalda um að fá að hækka skrásetningargjald nemenda í skólann um 20 þúsund krónur.

Katrín Jakobsdóttir sagði í fréttum RÚV í gær að vandlega þyrfti að fara yfir allt málið. Stjórnvöld hefðu lagt á það ríka áherslu að Háskóli Íslands stæði nemendum opinn og þangað gætu sem flestir sótt menntun við hæfi.

Ljóst væri að staðan væri þröng, en takmarkanir væru síðasta úrræðið sem unnt væri að grípa til.

Áætlað er að 900 nemendur verði við skólann á næsta ári sem ekki fylgi fjárveiting með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×