Innlent

Kemur í veg fyrir smitáhrif

björn Rúnar Guðmundsson
björn Rúnar Guðmundsson

Samningur gekk formlega í gildi í gær á milli Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem miðar að því að tryggja fjármálastöðugleika í löndunum öllum. Hann kveður á um sameiginleg viðbrögð ríkjanna allra gegn áfalli sem eitt þeirra verður fyrir og draga á úr hættunni á að fjármálakreppa breiði úr sér yfir landamæri. Ástand sem bundið er við einstakt ríki fellur ekki undir samkomulagið, líkt og segir í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands. Undir samkomulagið undirrituðu fulltrúar fagráðuneyta, seðlabanka og fjármálaeftirlita landanna allra, þar á meðal Íslands.

Þetta er tímamótasamningur en með samkomulaginu er komið á fót í fyrsta sinn evrópskum samstarfshópi á grundvelli samkomulags landa sem aðild eiga að evrópska efnahagssvæðinu (EES).

Nefnd stjórnvalda um fjármálastöðugleika mun leggja sitt af mörkum til að uppfylla samstarfssamninginn. Nefndin, sem hefur verið til í ýmsum myndum síðastliðin fjögur ár, hefur ekki verið skipuð að fullu, að sögn Björns Rúnars Guðmundssonar, skrifstofustjóra í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Hann gegnir tímabundið formennsku í nefndinni. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×