Fótbolti

Cristiano Ronaldo: Átti ekki að fá rautt fyrir að nefbrjóta hann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér sést atvikið þegar Cristiano Ronaldo brýtur nef Patrick Mtiliga.
Hér sést atvikið þegar Cristiano Ronaldo brýtur nef Patrick Mtiliga. Mynd/AFP

Cristiano Ronaldo baðst afsökunar á því að nefbrjóta Patrick Mtiliga, varnarmann Malaga, í spænsku úrvalsdeildinni í gær en þó ekki fyrr en eftir leikinn. Ronaldo skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri Real Madrid en var síðan rekinn útaf fyrir að því virtist greinilegt olnbogaskot tuttugu mínútum fyrir leikslok.

„Fólk sem horfir á og skilur fótbolta veit að ég er alltaf að reyna að spila fótbolta. Rauða spjaldið var skandall og ég bara skila það ekki," sagði Cristiano Ronaldo eftir leikinn en lék mikinn píslarvott inn á vellinum eftir að hann fékk rauða spjaldið.

Í endursýningu af atvikinu lítur þó út fyrir það að Ronaldo hafi gefið Mtiliga olnbogaskot í andlitið og þær sjónvarpsmyndir voru ekki að hjálpa Portúgalanum eða það að dómari leiksins var í frábærri aðstöðu til að meta atvikið eða aðeins nokkrum metrum frá.

„Ég fór niður í búningsherbergi Malaga-manna og baðst afsökunar og hann skyldi það sem gerðist. Ég veit að það sáu allir blóð í sjónvarpinu en ég var bara að reyna aðlosa mig. Ég myndi aldrei reyna að meiða einhvern," sagði Ronaldo.

Manuel Pellegrini, þjálfari Real Madrid kom Ronaldo til varnar. „Dómarar verða að reyna að átta sig á því hverjir eru að reyna að spila fótbolta og hverjir eru að reyna að koma í veg fyrir að fótbolti sé spilaður. Cristiano vill spila fótbolta og þegar leikmaður heldur honum þá reynir hann að losa sig. Aðrir henda sér niður og reyna að fiska aukaspyrnu," sagði Pellegrini.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×