Innlent

Leita nýrra nemenda í þrjá bekki

sölvi sveinsson
sölvi sveinsson

Landakotsskóli leitar nýrra nemenda á miðjum vetri. Fjölmargir foreldrar hafa fengið bréf frá skólanum undanfarna daga þar sem börnum er boðið að skipta um skóla frá næstu mánaðamótum. Starfsmenn skólans hafa borið bréfið út í sjálfboðavinnu, segir Sölvi Sveinsson skólastjóri, og þeir séu ekki hálfnaðir við útburðinn.

Bréfin eru send foreldrum sem búa á svæðinu frá Seltjarnarnesi og austur að Elliðaám og eiga börn í fjórða og sjöunda bekk grunnskóla eða fimm ára börn, fædd 2005. Fimm ára börnunum er boðið að hefja nám í fimm ára bekk Landakotsskóla um áramót. Ein fimm ára bekkjardeild er í skólanum en áhugi er á að opna aðra.

Sölvi segist ánægður með undirtektir foreldra.

„Ég er búinn að fá tvær umsóknir, eina um fimm ára bekk og aðra um fjórða bekk. Síðan hafa foreldrar verið að skoða."

Um 120 nemendur eru í Landakotsskóla í 1.-10. bekk grunnskóla auk fimm ára bekkjarins. Starfsmenn eru 27 talsins.

Sölvi segir að starfsmenn á hvern nemanda séu færri en í öðrum skólum og bekkjardeildirnar litlar miðað við það sem gerist og gengur. Um 25-30 prósent nemenda eiga erlenda foreldra eða íslenska foreldra sem eru nýlega fluttir heim frá útlöndum. - pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×