Körfubolti

Phil Jackson langar í vodka með rússneskum eigenda New Jersey Nets

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Jackson útilokar ekkert varðandi næstu skref ferilsins.
Jackson útilokar ekkert varðandi næstu skref ferilsins. Mynd/AP

Phil Jackson, þjálfari Los Angeles Lakers, hefur engan áhuga á því að snúa aftur til þjálfunar hjá Chicago Bulls. Hann hefur aftur á móti mikinn áhuga á að fá sér vodkaglas með nýjum eigenda New Jersey Nets.

ESPN skýrði frá því í gær að bæði félög hefðu áhuga á að fá hann til starfa. Jackson stýrði Bulls í mörg ár en hann er á sínu síðasta samningsári hjá Lakers.

Mikhail Prokhorov heitir nýr eigandi Nets. Hann er forríkur Rússi.

"Ég væri til í að fá mér, þið vitið, vodka með honum á einhverjum tímapunkti," sagði Jackson spakur. "Hann virðist vera ansi áhugaverður ungur maður. Ég hef aldrei búið í Brooklyn eða Newark."

Jackson var ómyrkur í máli en hann bætti þó við að það væru "mjög miklir möguleikar" á því að hann myndi þjálfa Lakers áfram ef hann hættir hreinlega ekki bara.

Orðrómur um að Nets vilji fá Jackson sem síðan á að lokka LeBron James til Nets er hávær. Hann neitaði að útiloka nokkuð á blaðamannafundinum í nótt, eftir leikinn gegn Phoenix Suns.

Jackson spilaði með Nets síðustu tvö ár ferils síns sem leikmaður sem lauk árið 1980. Hann spilaði með New York Knicks fyrstu tólf árin og var í liðinu sem varð meistari árið 1973.









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×