Innlent

Rannsóknir tveggja dýralækna stöðvaðar

Hestaveikin Viðamiklar rannsóknir eru í gangi til að finna veiru þá sem veldur smitandi hósta í hrossum og finna aðferðir sem gagnast gegn henni.
Hestaveikin Viðamiklar rannsóknir eru í gangi til að finna veiru þá sem veldur smitandi hósta í hrossum og finna aðferðir sem gagnast gegn henni.

Yfirdýralæknir, Halldór Runólfsson, bannaði í gær tveimur dýralæknum, að halda áfram þeim rannsóknum sem þeir hafa unnið að að undanförnu til að freista þessa að finna meðhöndlun á hrossum sem veikst hafa af smitandi hósta. Jafnframt hafa dýralæknarnir unnið að því að finna leiðir til að efla ónæmiskerfi hrossanna.

Þetta staðfesti Susanne Braun annar dýralæknanna við Fréttablaðið í gær. Hinn dýralæknirinn, Björn Steinbjörnsson, sem vinnur hjá Matvælastofnun, en hefur fengist við rannsóknirnar utan vinnutíma að því er fram kom í Fréttablaðinu fyrr í vikunni, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Susanne hefur verið sjálfstætt starfandi dýralæknir hér á landi um árabil.

„Já, það er rétt að ég bannaði þetta þar til að dýralæknarnir eru búnir að sækja um leyfi fyrir fyrirhugaðri tilraunastarfsemi á hrossum til tilraunadýranefndar og fá það,“ sagði yfirdýralæknir í gær. „Þegar ég frétti að þau væru farin að ráðgera umfangsmeiri tilraunir og óska eftir hestum til þess að prófa á þeim tiltekið efni, þá var ekki um annað að ræða en að þau yrðu að fara formlegu leiðina.“

Susanne kvaðst skilja þá afstöðu yfirdýralæknis að tilraunirnar þyrftu að fara í formlegt ferli.

„Ég mun sækja um leyfi til Tilraunadýranefndar með hraði og biðja um flýtimeðferð hjá nefndinni,“ sagði hún. „Það er svo mikið í húfi að okkur finnst að þetta þoli enga bið.“- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×