Körfubolti

NBA-deildin: Kidd og Nowitzki öflugir í sigri á Lakers

Ómar Þorgeirsson skrifar
Jason Kidd.
Jason Kidd. Nordic photos/AFP

Ellefu leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þar sem einna hæst bar 101-96 sigur Dallas Mavericks gegn LA Lakers.

Kobe Bryant tryggði Lakers sem kunnugt er sigurinn gegn Grizzlies í endurkomu leik sínum í fyrrinótt en náði ekki að endurtaka leikinn gegn Mavericks í nótt þar sem þriggja stiga skottilraun hans til að jafna leikinn missti marks þegar skammt lifði leiks.

Dirk Nowitzki var stigahæstur hjá Mavericks með 31 stig en gamla kempan Jason Kidd kom þar næstur með 30 stig, 7 fráköst og 13 stoðsendingar.

Hjá Lakers var Lamar Odom stigahæstur með 21 stig en Bryant kom næstur með 20 stig sem hann skoraði úr 23 skottilraunum sem þykir ekki glæsilegur árangur á þeim bænum.

Mavericks var að vinna sinn fimmta leik í röð og þetta var jafnframt sjötti leikurinn í röð sem liðið heldur mótherjum sínum undir 100 stigum.

„Við erum búnir að vera að spila fínan varnarleik í síðustu fimm eða sex leikjum. Það er mikilvægt í leikjum sem þessum þar sem við vorum ef til vill ekkert að hitta alltof vel," sagði Kidd í leikslok í nótt.

Úrslitin í nótt:

Dallas-LA Lakers 101-96

Atlanta-Minnesota 98-92

Toronto-Portlands 87-101

Washington-Memphis 94-99

Chicago-Indiana 120-110

Millwaukee-New Orleans 115-95

Houston-Orlando 92-110

San Antonio-Oklahoma City 95-87

Phoenix-Philadelphia 106-95

Utah-Charlotte 102-93

LA Clippers-Detroit 97-91











NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×