Fótbolti

Lionel Messi tókst ekki að bæta met Raúl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/AP
Lionel Messi skoraði þrennu í 8-0 stórsigri Barcelona á Almería í spænsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi og varð um leið aðeins fjórði leikmaðurinn sem nær því að skora 100 deildarmörk fyrir Barcelona.

Messi var aðeins 23 ára og 149 daga þegar hann braut hundrað marka múrinn í spænsku deildinni í gær en þrátt fyrir ungan aldru tókst honum samt ekki að bæta met Raúl sem var aðeins 22 ára og 293 daga þegar hann skoraði sitt hundraðasta mark fyrir Real Madrid. Messi er að sjálfsögðu í 2.sætinu.

Lionel Messi hefur nú skorað 13 mörk í fyrstu 10 deildarleikjum sínum með Barcelona á þessu tímabili og vantar aðeins sex mörk til þess að ná Samuel Eto'o sem er í 3. sæti yfir markahæstu leikmenn Barcelona með 107 mörk.

Lionel Messi hefur ennfremur skorað í tíu leikjum í röð í öllum keppnum með Barcelona og argentínska landsliðinu og hann hefur skorað samtals 17 mörk í þessum tíu leikjum - ótrúleg tölfræði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×