Íslenski boltinn

Tvær bandarískar stelpur með liði Þór/KA næsta sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Tvær bandarískar fótboltastelpur hafa gert saming við silfurlið Þór/KA í Pepsi-deild kvenna frá því í sumar og munu spila með liðinu á næsta tímabili. Þetta kom fram í frétt á heimasíðu Þórs í kvöld.

Leikmennirnir heita Manya Makoski og Marisha Schumacher-Hodge og hafa báðar spilað í bandarísku atvinnumannadeildinni.

Manya Makoski er 26 ára gamall vængmaður sem lék síðast með Atlanta Beat í Bandarísku atvinnumannadeildinni en ári áður var hún á mála hjá Los Angels Sol.

Makoski hefur leikið upp öll yngri landslið Bandaríkjanna og var meðal annars í leikmannahópi U-19 ára landsliði Bandaríkjanna sem hrósaði sigri á heimsmeistaramótinu í Kanada 2002.

Marisha Schumacher-Hodge er 23 ára miðjumaður en hún var síðast á mála hjá finnska liðinu Kokkola PV en þar áður var hún samningsbundin Atlanta Beat. Marisha er ekki ókunnug norðurlöndum en hún lék einnig með sænska liðinu Ragsveds.

Þór/KA hefur þegar misst tvo erlenda leikmenn því þær Vesna Smiljkovic og Danka Podovac sömdu báðar við nýliða ÍBV.

Viðar Sigurjónsson þjálfari Þór/KA er ánægður með liðsstyrkinn eins og sjá má í viðtali við hann hér að ofan en það birtist á heimasíðu Þórs í kvöld. Hann útilokar þar ekki að fleiri leikmenn komi til liðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×