Körfubolti

NBA-skipti: Antawn Jamison fór til Cleveland en ekki Stoudemire

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antawn Jamison.
Antawn Jamison. Mynd/AP
Cleveland Cavaliers fékk í nótt Antawn Jamison frá Washington Wizards þegar þrjú NBA-lið skiptu á milli sín leikmönnum. Drew Gooden fer til Los Angeles Clippers og Zydrunas Ilgauskas fer til Washington Wizards auk valréttar og réttinum fyrir Emir Preldzic. Cleveland fékk einnig Sebastian Telfair frá Clippers í þessum skiptum.

„Antawn er frábær atvinnumaður og við erum mjög spenntir fyrir því að fá til okkar stjörnuleikmann eins og Antawn sem hefur mikla hæfileika og góðan karakter," sagði Danny Ferry, framkvæmdastjóri Cavaliers.

„Hann bæti við okkar leik, hjálpar liðinu inn í teig auk þess að draga lið út með hittni sinni. Við trúum því að hann passi vel inn í okkar lið innan sem utan vallar," bætti Ferry við.

Antawn Jamison var með 20.5 stig og 8,8 fráköst að meðaltali með Washington Wizards á tímabilinu en hann hefur skorað 19,9 stig að meðaltali í 839 leikjum sínum í NBA-deildinni. Hann er 33 ára gamall og hefur verið í deildinni frá 1998 með Golden State, Dallas og síðan Washington frá 2004.

Hinn 34 ára Ilgauskas hefur spilað allan tólf ára feril sinn með Cleveland en hann er aðeins með 7,5 stig og 5,3 fráköst að meðaltali á þessu tímabili enda hefur Shaquille O'Neal tekið yfir miðherjastöðuna í liðinu.

Það fór því ekki svo að Amare Stoudemire færi til Cleveland og hans mál komast líklega ekki á hreint fyrr en að félagskiptaglugganum lokar í nótt. Stoudemire gæti jafnvel spilað áfram með Phoenix Suns.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×