Innlent

Telur makrílveiðar Íslands og Færeyja óviðunandi

Maria Damanaki Fordæmir makrílveiðar Íslendinga en vill ekki blanda þeim við aðildarviðræðurnar.
nordicphotos/afp
Maria Damanaki Fordæmir makrílveiðar Íslendinga en vill ekki blanda þeim við aðildarviðræðurnar. nordicphotos/afp

„Einhliða makríl-kvótar Færeyinga og Íslendinga eru ekkert minna en óviðunandi,“ sagði Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, á blaðamannafundi eftir að sjávarútvegsráðherrar ESB-ríkjanna höfðu rætt makríldeiluna á fundi í gær.

Damanaki sagði veiðarnar langt umfram það sem löndin gætu krafist enda hefði Evrópusambandsríki og Noregur byggt upp makrílstofninn. Hún fullyrðir að veiðar Íslendinga og Færeyinga grafi undan tilraunum til að byggja upp sterkan makrílstofn.

Damanaki sagði ESB tilbúið í átök vegna málsins en tók fram í ræðu sinni að framkvæmdastjórn ESB tengi deilurnar um makrílveiðar ekki við aðildarviðræður Íslands við sambandið.

Ræða Damanaki kom í kjölfar fundar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra ESB en þar voru veiðar Íslendinga og Færeyinga fordæmdar. Ráðherrarnir gáfu Damanaki skýrt umboð til að halda áfram samningaumleitunum í deilunni.

Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skotlands, sat fundinn fyrir hönd Bretlands. Hann sagði að ESB hefði sent skýr skilaboð um að veiðarnar yrðu ekki liðnar. Það yrði að koma í veg fyrir að þjóðir tækju sér einhliða kvóta úr tegundinni til að vernda þau samfélög sem á hana treysta. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×