Körfubolti

Kobe sá um Phoenix

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Kobe Bryant fór mikinn í liði Lakers í nótt sem vann afar öruggan sigur á Phoenix, 128-107, í fyrsta leik liðanna í úrslitum Vesturdeildar NBA-deildarinnar.

Menn höfðu áhyggjur af því hvort Kobe væri mjög slæmur í hnénu en hann þaggaði niður í þeim röddum í nótt með því að skora 40 stig. Efasemdarmenn um styrk varamanna Lakers þurftu einnig að setja sokk í sig því þeir voru magnaðir.

„Þessi stórsigur kom okkur á óvart. Kannski erum við búnir að toppa," sagði Phil Jackson, þjálfari Lakers.

Kobe hefur vart spilað heill heilsu í allan vetur og æfði ekkert alla síðustu viku. Þrátt fyrir það hefur hann líklega aldrei spilað betur í úrslitakeppninni á sínum ferli.

Hann er nú búinn að skora yfir 30 stig í sex leikjum í röð en það hefur hann ekki afrekað áður á 14 ára ferli.

„Lykillinn að þessu er hár aldur," sagði Kobe og hló.

Lamar Odom átti frábæra innkomu af bekknum með 19 stig og 19 fráköst.

Amar´e Stoudemire skoraði 23 stig fyrir Suns en Steve Nash skoraði 13 og gaf 13 stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×