Körfubolti

NBA: Ginobili skoraði 43 stig í sigri San Antonio á Orlando

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manu Ginobili var frábær í nótt.
Manu Ginobili var frábær í nótt. Mynd/AP
Manu Ginobili átti enn einn stórleikinn á síðustu vikum þegar hann skoraði 43 stig í 112-100 sigri San Antonio Spurs á Orlando Magic í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Þetta var í fjórða sinn sem hann skorar 30 stig eða meira í leik síðan að Tony Parker meiddist og Ginobili tók stöðu hans í byrjunarliðinu.

Tim Duncan var með 23 stig fyrir San Antonio en hjá Orlando skoruðu þeir Rashard Lewis og Mickael Pietrus 18 stig hvor en Orlando hafði fyrir leikinn unnið þrjá leiki í röð.

LeBron James var með 27 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar þegar Cleveland vann sinn sextugasta sigur á tímabilinu með því að leggja Atlanta Hawks 93-88. Cleveland varð þar með aðeins níunda liðið í sögu NBA sem nær að vinna 60 leiki tvö tímabil í röð. Mo Williams var með 24 stig hjá Cleveland en Josh Smith skoraði 20 stig fyrir Atlanta.

Lamar Odom og Kobe Bryant voru í aðalhlutverki þegar Los Angeles Lakers endaði tveggja leikja taphrinu með 106-92 sigri á Utah Jazz. Lamar Odom var með 26 stig og 10 fráköst en Kobe Bryant skoraði 25 stig þar af 15 þeirra úr 18 vítaskotum sínum í leiknum. Deron Williams (20 stig og 10 stoðsendingar) og Carlos Boozer (20 stig og 18 fráköst) voru atkvæðamestir hjá Utah.

Luis Scola var með 27 stig og 11 fráköst þegar Houston Rockets vann 119-114 útisigur á Boston Celtics eftir framlengdan leik. Scola skoraði meðal annars tvær stórar körfur á síðustu 82 sekúndunum í framlengingunni. Aaron Brooks var með 30 stig og 9 stoðsendingar auk þess að koma leiknum í framlengingu en Paul Pierce var með 27 stig fyrir Boston. Þetta var þriðji tapleikur Boston í röð á heimavelli.

Amare Stoudemire var með 27 stig og hitti úr 13 af 15 skotum þegar Phoenix Suns vann sinn tíunda leik í röð nú 109-94 sigur á Detroit Pistons. Þetta var tíunda tap Detroit í röð.

Dwyane Wade skoraði 43 stig, þar 8 þeirra í framlengingu, þegar Miami Heat vann 105-96 sigur á Indiana Pacers.

Don Nelson nálgast óðum met Lenny Wilkens fyrir flesta sigurleiki þjálfara í sögu NBA-deildarinnar en 128-117 sigur Golden State Warriors á New York Knicks í nótt var hans 1331. þjálfarasigur í NBA-deildinni. Wilkens vann á sínum tíma 1332 leiki og Nelson hefur sjö leiki eftir á tímabilinu til þess að slá metið.

Úrslit allra leikja í NBA-deildinni í nótt:

Charlotte Bobcats-Milwaukee Bucks 87-86 (framlengt)

Indiana Pacers-Miami Heat 96-105 (framlengt)

Washington Wizards-Chicago Bulls 87-95

Boston Celtics-Houston Rockets 114-119 (framlengt)

Cleveland Cavaliers-Atlanta Hawks 93-88

Detroit Pistons-Phoenix Suns 94-109

Memphis Grizzlies-New Orleans Hornets 107-96

San Antonio Spurs-Orlando Magic 112-100

Golden State Warriors-New York Knicks 128-117

Los Angeles Lakers-Utah Jazz 106-92



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×