Innlent

Slógu upp veislu eftir rýmingu

Veislumatur Þótt breskir skólakrakkar hafi orðið af lambalærinu gátu gestir í fjöldahjálparstöðinni í Hvolsskóla á Hvolsvelli notið matarins.
Mynd/Egill Bjarnason
Veislumatur Þótt breskir skólakrakkar hafi orðið af lambalærinu gátu gestir í fjöldahjálparstöðinni í Hvolsskóla á Hvolsvelli notið matarins. Mynd/Egill Bjarnason

Hópur fjörutíu breskra skólakrakka þurfti að rjúka frá heitu lambalærinu á kvöldverðarborðinu á Hellishólum í Fljótshlíð á fimmtudagskvöld þegar kallið kom um rýmingu. Maturinn fór þó ekki til spillis heldur var slegið upp veislu í fjöldahjálparmiðstöðinni á Hellu.

Matargestirnir flúðu hlaupið í Markarfljóti alla leið til Hveragerðis þar sem þeir fengu loks eitthvað í svanginn. Lambalærið fór hins vegar ekki lengra en á Hvolsvöll, segir Laila Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Hellishóla.

„Við vorum ekkert að slóra, en maturinn var allur kominn í hitaborðið svo við tókum hann bara með,“ segir Laila.

Fólk sem rýma hafði þurft hús sín í Fljótshlíðinni og víðar þurfti því ekki að svelta þetta kvöld frekar en önnur, og segir Laila að lambakjötið hafi runnið ljúflega niður í gesti í fjöldahjálparstöðinni.

Eldgosið og sífelldar rýmingar vegna hlaupa í Markarfljóti eru þegar farnar að hafa slæm áhrif á bókanir, segir Laila. Fullbókað er svo til allt sumarið að Hellishólum, en þegar hefur borið á afbókunum, segir Laila.

„Svo er þetta auðvitað þreytandi fyrir okkur sem búum hérna, þetta er auðvitað rosalegt ástand að vera alltaf að rýma,“ segir Laila.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×