Körfubolti

Byssubrandurinn Arenas settur í ótímabundið keppnisbann

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Gilbert Arenas var nánast búinn að gera allt til þess að fara í keppnisbann nema hreinlega biðja um að vera settur í bann.

Hann getur beðið með það því David Stern, yfirmaður NBA-deildarinnar, hefur sett leikmanninn í ótímabundið keppnisbann. Það sem meira er þá fær hann ekkert greitt meðan á banninu stendur. Margir spá því að bannið muni standa út leiktíðina.

Arenas komst að sjálfsögðu í fréttirnar fyrir að koma með að minnsta kosti þrjár byssur í búningsklefa liðs síns, Washington Wizards, áður Bullets, og þar miðaði hann byssu á einn liðsfélaga sinn sem gerði slíkt hið sama.

NBA-deildin lítur málið afar alvarlegum augum en Arenas hefur ekki gert slíkt hið sama. Steininn tók úr fyrir leikinn gegn Philadelphia í vikunni þegar Arenas þóttist skjóta félaga sína með fingrinum í upphitun.

Meira þurfti Stern ekki að sjá og hann henti leikmanninum í bann.

Arenas mun líklega verða af um 10 milljónum dollara standi bannið til loka leiktíðarinnar.

 

 



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×