Körfubolti

Austrið vann nauman sigur og Dwyane Wade var valinn bestur

Óskar ÓfeigurJónsson skrifar
Dwyane Wade var valinn bestur í Stjörnuleiknum í nótt.
Dwyane Wade var valinn bestur í Stjörnuleiknum í nótt. Mynd/AP

Lið Austurdeildarinnar vann 141-139 sigur á Vesturdeildinni í spennandi og skemmtilegum Stjörnuleik NBA-deildarinnar í Dallas í nótt en þetta var fyrsti körfuboltaleikur sögunnar sem fær meira en hundrað þúsund áhorfendur.

Dwyane Wade var kosinn besti leikmaður Stjörnuleiksins en hann var með 28 stig, 11 stoðsendingar, 6 fráköst og 5 stolna bolta á 31 mínútu auk þess að dekka Carmelo Anthony í lokaskotinu sem mistókst.

LeBron James átti heldur ekki slæman dag en hann var með 25 stig, 6 stoðsendingar, 5 fráköst og 4 stolna bolta og Austrið vann með 14 stigum þann tíma sem hann spilaði.

Chris Bosh, leikmaður Toronto Raptors, tryggði Austrinu sigurinn með því að skora úr tveimur vítum fimm sekúndum fyrir leikslok. Bosh var með 23 stig og 10 fráköst í leiknum.

Denver-mennirnir Carmelo Anthony (27 stig og 10 fráköst) og Chauncey Billups (14 af 17 stigum í fjórða) voru bestir hjá Vestrinu ásamt heimamanninum Dirk Nowitzki sem skorað 22 stig í leiknum.

Ævintýramaðurinn Mark Cuban, eigandi Dallas, tilkynnti stoltur í lok þriðja leikhlutans að það hefði verið sett nýtt heimsmet með því að fá 108.713 áhorfendur á þennan leik í nótt.











NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×