Körfubolti

NBA: Nowitzki með þrennu, Lakers tapaði og New Jersey vann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Nowitzki fagnar í nótt.
Dirk Nowitzki fagnar í nótt. Mynd/AP
Dirk Nowitzki átti flottan leik í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þegar Dallas Mavericks vann mikilvægan sigur á Denver Nuggets í baráttunni um annað sætið í Vesturdeildinni.

Dirk Nowitzki var með 34 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar í 109-93 sigri Dallas en þetta var aðeins í annað skiptið á ferlinum sem hann nær þrefaldri tvennu. Shawn Marion var með 21 stig fyrir Dallas en J.R. Smith var stigahæstur hjá Denver með 27 stig.

Þetta var fimmta tap Denver í síðustu sex leikjum en Carmelo Anthony var aðeins með 10 stig í leiknum þar sem hann hitti bara úr 3 af 16 skotum.

New Jersey Nets vann sinn tíunda leik á tímabilinu þegar liðið vann 90-84 sigur á San Antonio Spurs þar sem Brook Lopez var með 22 stig og 12 fráköst. Þar með með er ljóst að Philadelphia 76ers liðið frá 1972-73 á áfram eitt versta árangurinn frá upphafi en liðið vann aðeins 9 af 82 leikjum sínum það tímabil.

Chris Paul var með 15 stig og 13 stoðsendingar þegar New Oerleans Hornets vann 108-100 sigur á meisturunum í Los Angeles Lakers en þetta var fyrsta tvennan hans Paul síðan hann snéri aftur eftir hnémeiðsli. Kobe Bryant var með 31 stig fyrir Lakers og Pau Gasol bætti við 26 stigum og 22 fráköstum.

Tvíeykið Carlos Boozer (26 stig og 14 fráköst) og Deron Williams (23 stig og 14 stoðsendingar) sáu til þess að Utah náði fyrsta sætinu í Norðvestur-deildinni af Denver með 103-98 sigri á New York Knicks. Al Harrington var með 26 stig og 17 fráköst hjá New York.

Chris Bosh var með 22 stig og 11 fráköst og Hedo Turkoglu skoraði stóra körfu undir lokin þegar Toronto Raptors vann 103-101 sigur á Charlotte Bobcats.

Úrslit allra leikja í NBA-deildinni í nótt:

Charlotte Bobcats-Toronto Raptors 101-103

New Jersey Nets-San Antonio Spurs 90-84

New Orleans Hornets-Los Angeles Lakers 108-100

Dallas Mavericks-Denver Nuggets 109-93

Utah Jazz-New York Knicks 103-98



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×