Körfubolti

Byssuslagur í búningsklefa Washington

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gilbert Arenas.
Gilbert Arenas.

Lögregluyfirvöld rannsaka þessa dagana hreint út sagt ótrúlega uppákomu í búningsklefa NBA-liðsins Washington Wizards. Leikmenn liðsins, Gilbert Arenas og Javaris Crittenton, miðuðu þá byssum á hvorn annan er þeir rifust um spilaskuld Arenas sem hann var óviljugur að greiða.

Arenas hefur farið mikinn á Twitter eftir atvikið og hefur gert lítið úr atvikinu sem honum finnst vera blásið upp. Ekki víst að allir séu sammála honum um að það sé eðlilegt að vera með byssur í skápnum sínum og síðan að miða byssu á liðsfélaga.

NBA er ekki með neina rannsókn á atvikinu heldur sér lögreglan í höfuðborginni um málið. NBA mun því líklegast ekki grípa til sérstakra ráðstafana fyrr en þeirri rannsókn er lokið.

Arenas hefur viðurkennt að hafa verið með nokkrar byssur í skápnum sínum. Félag hans segir þó að byssurnar hafi ekki verið hlaðnar. Arenas segist hafa geymt byssurnar þarna þar sem hann hafi ekki viljað hafa byssur á heimili sínu þar sem er ungabarn. Lögreglan hefur gert allar byssurnar upptækar.

Arenas segir að lögreglan vilji fá að vita hvort um sé að ræða löglegar byssur. Afar strangar reglur eru um byssueign í Washington. NBA-deildin leyfir löglega byssueign leikmanna en meinar þeim að hafa slíkan búnað á NBA-stöðum eða þegar leikmenn ferðast á vegum deildarinnar.

 

 





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×