Körfubolti

NBA: Orlando með þriggja stiga skotsýningu í sigri á Dallas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwight Howard treður hér boltanum í körfuna í nótt.
Dwight Howard treður hér boltanum í körfuna í nótt. Mynd/AP

Orlando Magic er í góðum gír þessa dagana í NBA-deildinni í körfubolta en liðið vann öruggan 97-82 útisigur á Dallas Mavericks í nótt. Aðeins tveir leikir fóru fram í deildinni en Denver stöðvaði sigurgöngu Portland Trail Blazers í hinum leiknum.

Dwight Howard var með 17 stig, 20 fráköst og 5 varin skot fyrir Orlando Magic en það var þó þriggja stiga skotnýting liðsins sem gerði út um leikinn. Leikmenn Orlando hittu úr 14 af 24 skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna.

Mickael Pietrus skoraði 24 stig og hitti úr öllum sex þriggja stiga skotum sínum. Vince Carter var með 19 stig en þetta var 14. sigur Orlando í síðustu 16 leikjum.

Dirk Nowitzki skoraði 24 stig fyrir Dallas sem hafði unnið þrjá leiki í röð fyrir leikinn í nótt en þeir Jason Terry og J.J. Barea voru síðan báðir með 16 stig.

Carmelo Anthony skoraði 13 af 25 stigum sínum í fjórða leikhlutanum þegar Denver Nuggets vann 109-92 heimasigur á Portland Trail Blazers. Nene skoraði 22 stig fyrir Denver og Chauncey Billups var með 21 stig en þetta var aðeins annar sigur Denver-liðsins í síðustu sjö leikjum.

Andre Miller skoraði 24 stig fyrir Portland en liðið var búið að vinna fjórða síðustu leiki sína fyrir þennan leik. Martell Webster (17 stig) og LaMarcus Aldridge (16 stig) komu honum næstir í stigaskori liðsins.

Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

Dallas Mavericks-Orlando Magic 82-97

Denver Nuggets-Portland Trail Blazers 109-92



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×