Innlent

„Ótrúlegt örlæti“

Verkamaður hjá Reykjavíkurborg var svo sleginn þegar hann sá frétt Stöðvar 2 í gær um skemmdarverk sem unnnin voru á bíl Margrétar Marelsdóttir að hann hafði samband og bauðst til að borga skemmdirnar. „Ótrúlegt örlæti," segir Margrét.

Eins og sagt var frá í fréttum Stöðvar 2 í gær fór óprúttinn aðili hamförum fyrir utan hús Margrétar Marelsdóttir. Reif bílastæðaskilti fyrir fatlaða af stöng sinni og grýtti því að alefli í framrúðu bíls Margrétar og sprengdi rúðuna. Margrét er öryrki og gengur með tvo stómaleggi og er þar af leiðandi algjörlega háð bílnum sínum.

„Mér finnst hræðilegt að svona mannvonska skuli vera til," sagði Margrét í gær. Hún fór og lét laga rúðuna í gær og kostaði viðgerðin 8000 krónur. Það er kannski ekki mikið fyrir marga en meira en nóg fyrir Margréti sem þarf að draga fram lífið á örorkubótum.

Fréttin af Margréti vakti viðbrögð. Einn maður sem hringdi bauðst til borga skemmdirnir úr eigin vasa. Af hógværð sinni vildi hann ekki þekkjast að myndum og bað um vera ekki nafngreindur. En þetta er það sem fór á milli hans og Margrétar.

„Ég vil bara þakka þér innilega fyrir. Guð blessi þig," sagði Margrét. „Mér finnst stórkostlegt að hann skuli styðja okkur."

Margrét vildi ekkert segja til hvort hún ætti þessa aðstoð skilið. „Sem betur fer er til gott fólk í þjóðfélaginu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×