Innlent

Vill að leynd yfir skýrslu um útigangsmenn sé aflétt

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar

Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði Reykjavíkur gagnrýnir leynd yfir skýrslu um málefni utangarðsfólks. Hann hefur farið fram á að trúnaði um skýrsluna verði aflétt.

Um áfangaskýrslu er að ræða, en hún var að sögn Þorleifs Gunnlaugssonar, fulltrúa Vinstri grænna í velferðarráði, unnin síðasta haust af eftirlitsmönnum. Þar er fjallað um reynsluna af smáhýsum fyrir utangarðsmenn á Granda, en eins og fréttastofa greindi frá varð nýlega dauðsfall í einu þeirra.

Fréttastofa hefur farið fram á að fá aðgang að skýrslunni en verið hafnað. Þorleifur gagnrýnir þessa leynd, en sjálfur segist hann hafa þurft að beita hörku til að fá að sjá skýrsluna. Hann segir mikilvægt að trúnaðinum verði aflétt svo vitræn umræða geti farið fram um málefni þessa þjóðfélagshóps.

Kjörnum fulltrúum var sýnd skýrslan á síðasta fundi velferðarráðs í trúnaði, en þar lagði Þorleifur til að trúnaðinum verði aflétt. Tillagan var ekki afgreidd á fundinum, en Þorleifur segir að sér hafi verið tjáð að ekki verði fallist á hana.

„Þetta eru að mínu mati forneskjuleg vinnubrögð, nýr meirihluti í Reykjavík hefur talað fyrir opinni og gagnsærri stjórnsýslu og það er kominn tími til að svo verði," segir Þorleifur Gunnlaugsson fulltrúi Vinstri Grænna í velferðarráði.

Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar lagði fram bókun á síðasta fundi velferðarráðs um að það væri ekki íbúum smáhýsanna til hagsbóta að aflétta trúnaði á skýrslunni þar sem í henni séu persónurekjanlegar upplýsingar. Opin og gagnsæ stjórnsýsla sé mikilvæg, en hún megi ekki vera á kostnað skjólstæðinga velferðarkerfisins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×