Körfubolti

LeBron hættir að spila í treyju númer 23

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

LeBron James stakk upp á því í vetur að hætt verði að spila í treyju númer 23 í NBA-deildinni til þess að heiðra Michael Jordan.

James, sem sjálfur spilar í treyju númer 23, fékk heldur dræmar undirtektir við þessari uppástungu. Það hefur þó ekki stöðvað hann frá því að fara með málið alla leið.

Hann hefur nú gengið frá pappírsvinnunni og getur því spilað í treyju númer 6 á næstu leiktíð. Að það þurfi sérstaka pappírsvinnu til þess að skipta um treyjunúmer er reyndar frétt út af fyrir sig.

Hann þurfti meira að segja að ganga frá þessum pappírum fyrir miðvikudaginn svo gjörningurinn verði löglegur. Ef hann hefði ekki gert það hefði hann verið "neyddur" til þess að spila áfram í treyju númer 23.

James spilaði í treyju númer 6 á Ólympíuleikunum og það verður hans framtíðarnúmer.

Hann verður pottþétt með númer 6 á bakinu fari svo að hann spili áfram með Cleveland. Skipti hann aftur á móti um félag má hann spila með hvaða númer sem er á bakinu, líka númerið 23.

 

 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×