Körfubolti

NBA: Þriðja tap Los Angeles Lakers liðsins í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant sést hér eftir að lokaskot hans mistókst.
Kobe Bryant sést hér eftir að lokaskot hans mistókst. Mynd/AP

Orlando Magic vann 96-94 sigur á Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í nótt sem þýddi að NBA-meistararnir töpuðu sínum þriðja leik í röð í fyrsta sinn síðan að þeir bættu við sig Pau Gasol.

Vince Carter byrjaði leikinn frábærlega og var stigahæstur hjá Orlando Magic með 25 stig en Dwight Howard bætti við 15 stigum og 16 fráköstum. Kobe Bryant skoraði 34 stig og átti möguleika að jafna leikinn í blálokin en hitti ekki. Pau Gasol skoraði 20 stig.

Ray Allen skoraði 25 stig í 86-83 sigri Boston Celtics á Washington Wizards en Celtic-menn voru 13 stigum undir þegar rúmar sex mínútur eftir en enduðu leikinn á 20-4 spretti. Allen var með 8 stig og Rajon Rondo skoraði 6 stig á þessum frábæra endakafla liðsins.

Tayshaun Prince var með 29 stig þegar Detroit Pistons endaði 6 leikja taphrinu með því að vinna 110-107 sigur á Houston Rockets eftir framlengdan leik. Richard Hamilton skoraði 22 stig fyrir Detroit en Kevin Martin var með 27 stig fyrir Houston og Aaron Brooks bætti við 25 stigum.

Carmelo Anthony skoraði yfir 30 stig þriðja leikinn í röð þegar Denver Nuggets vann 118-106 sigur á Portland Trail Blazers. Denver er búið að vinna 28 af 33 heimaleikjum sínum á tímabilinu.

Kevin Durant var með 27 stig og 8 fráköst í 108-102 sigri Oklahoma City Thunder á Sacramento Kings en þetta var sjöundi sigur liðsins í síðustu níu leikjum.

Thaddeus Young var með 32 stig fyrir Philadelphia 76ers sem endaði fimm leikja taphrinu með 114-101 sigri á Toronto Raptors. Jarrett Jack var stigahæstur hjá Toronto með 20 stig en liðið tapaði þarna sínum fimmta leik af síðustu sex.

Úrslit leikja næturinnar í NBA-deildinni í körfubolta:

Toronto Raptors-Philadelphia 76ers 101-114

Orlando Magic-Los Angeles Lakers 96-94

Detroit Pistons-Houston Rockets 110-107 (framlengt)

Boston Celtics-Washington Wizards 86-83

Sacramento Kings-Oklahoma City Thunder 102-108

Denver Nuggets-Portland Trail Blazers 118-106



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×