Körfubolti

Boston jafnaði metin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ray Allen og Paul Pierce í leiknum í nótt.
Ray Allen og Paul Pierce í leiknum í nótt. Mynd/AP

Boston vann í nótt sigur á LA Lakers, 103-94, í lokaúrslitum NBA-deildarinnar í körfubolta og jafnaði þar með stöðuna í rimmu liðanna í 1-1.

Ray Allen átti stórleik í fyrri hálfleik og Rajon Rondo fór mikinn allan leikinn. Sá síðarnefndi náði glæsilegri þrefaldri tvennu - nítján stigum, tólf fráköstum og tíu stoðsendingum, er Boston varð fyrsta liðið í úrslitakeppninni í ár til að vinna á heimavelli Lakers.

Allen átti einnig stórleik. Hann skoraði 32 stig, þar af komu 27 stig í fyrri hálfleik. Hann setti niður alls átta þrista í leiknum en það er met í sögu lokaúrslita NBA-deildarinnar.

Næstu þrír leikir fara nú fram á heimavelli Boston sem getur þar með klárað rimmuna á heimavelli.

Boston hafði yfirhöndina lengst af í leiknum og staðan í hálfleik var 54-48, gestunum í vil. En snemma í þriðja leikhluta náði Lakers að jafna metin og komast yfir um stundarsakir.

Leikurinn var spennandi þar til að Boston byrjaði á 11-0 spretti þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Staðan var 98-90 þegar rúm mínúta var til leiksloka og sigurinn í raun tryggður.

Pau Gasol var stigahæstur hjá heimamönnum með 25 stig en þeur Andrew Bynum og Kobe Bryant skoruðu 21 stig hvor.

Allen og Rondo voru stigahæstir hjá Boston en næsir komu Kendrick Perkins með tólf stig og Paul Pierce með tíu.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×