Innlent

Sveitarfélögin taka yfir málefni fatlaðra

Á leið í strætó Umfangsmiklar breytingar verða á starfsemi sveitarfélaga með flutningi málefna fatlaðra til þeirra. fréttablaðið/vilhelm
Á leið í strætó Umfangsmiklar breytingar verða á starfsemi sveitarfélaga með flutningi málefna fatlaðra til þeirra. fréttablaðið/vilhelm

Lög um flutning málefna fatlaðra frá ríkinu til sveitarfélaga voru samþykkt á laugardag – lokastarfsdegi Alþingis fyrir jól.

Flutningurinn hefur verið lengi í bígerð en lagasetningin var lokahnykkur vinnu sem hófst í febrúar 2007 að frumkvæði sveitar­félaganna.

Undirbúning málsins má rekja aftur til 1996 þegar þingið ákvað að stefna bæri að yfirfærslunni. Fjórum árum síðar sigldi verkefnið í strand og lá óhreyft í sjö ár.

Samkvæmt greinargerð frumvarpsins um flutninginn varðar hann um 2.500 einstaklinga sem fá þjónustu vegna fötlun sinnar. Að sögn Guðmundar Magnússonar, formanns Öryrkjabandalags Íslands, er þó um fleiri að tefla því ekki hafi allir fatlaðir notið þjónustu á vegum svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra.

Vegna flutningsins færast um 1.500 starfsmenn í rúmlega 1.000 stöðugildum frá ríkinu til sveitarfélaga.

Við þessa ákvörðun hefur skipting tekna milli ríkisins og sveitarfélaganna verið endurskoðuð. Færast rúmlega tíu milljarðar króna af skatttekjum til sveitarfélaga.

Þjónustuþættir sem sveitarfélögin taka yfir eru sambýli, áfangastaðir, liðveisla, hæfingarstöðvar, dagvistarstofnanir, verndaðir vinnustaðir og atvinna með stuðningi, heimili fyrir börn og skammtímavistanir.

Áfram hjá ríkinu verða náms- og starfsendurhæfing, Tölvumiðstöð fatlaðra, Múlalundur, Blindravinnustofan og vinnustaðir Öryrkjabandalagsins.

bjorn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×